Gönguferðir, Náttúra, Skoðunarferðir, Hugmyndir

Gönguleið ömmu á Hala

Gönguleið ömmu á Hala er skemmtileg gönguleið sem hentar öllum aldri. Á gönguleiðinni eru skilti sem að vísa veginn og segja frá því helsta sem að fyrir augum ber og bekkir sem hægt er að tylla sér á til að njóta útsýnisins. Hægt er að velja um þrjár mislangar gönguleiðir.

Ömmu á Hala hefur alltaf verið umhugsað um heilsuna. Eitt af því sem að hún hefur lagt mikla áherslu á eftir að hún komst á efri ár er að hreyfa sig reglulega. Hún fer í gönguferð nánast upp á hvern einasta dag og leiðin sem hún gengur hér á torfunni hefur fest sig í sessi sem ,,Gönguleiðin hennar ömmu”

Gönguleiðin sem að varð til 2003 þegar undirbúningur hófst að Þórbergssetri og vegslóði var gerður vestur í aur. Öll sumur gengur hún hér eins og herforingi með göngustafina sína en þeir eru mikið þarfaþing þar sem að sjónin hefur daprast en einnig nýtast þeir vel til að slá til kríunnar sem getur verið ágeng á gönguleiðinni.

Amma á Hala á íslandsmetið á þessari gönguleið en frá því hún var áttræð og til dagsins í dag er hún búin að ganga rúmlega 10 þúsund km, sem samsvarar því að ganga 8 hringi í kringum Ísland sé miðað við hringveginn sem er 1332 km.

 

Hver er Amma á Hala?

Amma á Hala heitir Ingibjörg Zophaníasdóttir. Hún fæddist 22. ágúst 1923 á Hóli í Svarfaðadal. Fram til ársins 1937 bjó fjölskyldan á Hóli í torfbæ en í kjölfar stóra jarðskjálftans 1934 var hafist handa við að reisa steinhús á Hóli.  Vorið 1945 flutti Ingibjörg í Austur-Skaftafellssýslu með Torfa Steinþórssyni bóndasyni og kennara frá Hala í Suðursveit, en honum kynntist hún þegar hann kom sem farkennari norður í Svarfaðardal 1942 þar sem hann kenndi í þrjá vetur.

Afkomendur Ingibjargar vildu heiðra hana með því að merkja gönguleiðina hennar sérstaklega. Hún er mörgum mikil fyrirmynd, ávalt jákvæð og hefur látið til sín taka í samfélaginu á ýmsum sviðum síðan að hún flutti á Hala.

Við hvetjum alla til þess að koma við að Hala á ferð sinni um ríki Vatnajökuls og ganga ,,Gönguleiðina hennar ömmu.”

Aðrir möguleikar

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull