Leiðsögn, Gönguferðir, Náttúra, Skoðunarferðir, Hugmyndir

Gönguleiðir í ríki Vatnajökuls

Það eru margvíslegar og fjölbreyttar gönguleiðar víðsvegar um ríki Vatnajökuls, og eru margar þeirra að finna innan Vatnajökulþjóðgarðs. Þessar gönguleiðir eru merktar samkvæmt erfiðleikastuðli og ættu því allir að geta fundið gönguleið við sitt hæfi. Að ganga í einstakri náttúrufegurð ríki Vatnajökuls er afþreying sem að enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Breiðármörk

Þetta göngukort sýnir gönguleiðina milli Jökulsárlóns og Fjallsárlóns á Breiðamerkursandi. Gönguleiðin Breiðármörk er hluti af stærra gönguleiðakerfi sem verið er að byggja upp í Austur-Skaftafellssýslu og mun í framtíðinni tengja leiðina allt frá Skaftafelli í vestri yfir að Lónsöræfum í austri. Gönguleiðin er tæplega 15 km löng og liggur meðfram þrem jökullónum. Á leiðinni fæst innsýn í gróðurfar, fuglalíf og jarðfræði svæðisins sem og hvernig lífið var áður fyrr á þessu einangraða landsvæði sem hefur í aldanna rás verið undirorpið kröftum skriðjökla og straumþungra jökuláa.

Fjallsárlón – Þorvarður Árnason

Þó að Breiðármörk sé metin sem rauð gönguleið þá telst meirihluti hennar blár. Leiðin er stikuð yfir sanda, urðir og jökulgarða. Landið er ekki allt slétt og nokkuð grýtt á köflum. Þó eru engar teljandi hæðarbreytingar, né yfir óbrúaðar ár og læki að fara þannig að hún ber ekki með sér neina sérstaka erfiðleika fyrir göngufólk. Leiðin er tæplega 15 km löng og gera má ráð fyrir um 5 tímum til að ganga hana. Drykkjarvatn finnst ekki á leiðinni þannig að nauðsynlegt er að taka það með sér.

Breiðamerkurjökull – Páll Jökull Pétursson

Heinaberg, Hjallanes, Hoffell

Þrjár miklar jökultungur setja svip sinn á svæði Heinabergs og Hjallaness sem samanstendur af Hjallanesi vestan Kolgrímu og Heinabergi austan hennar. Er fágætt að finna jökla í jafnmiklu návígi við heilt byggðarlag. Oft má sjá stórar hjarðir hreindýra á svæðinu frá hausti og fram á vor. Á litlu ísöld og fram yfir aldamótin 1900 náðu jökultungur Skálafellsjökuls og Heinabergsjökuls saman fyrir framan Hafrafell. Þá lá skriðjökull yfir Hjallanesi og má sjá þess ýmis merki þegar þar er gengið um, s.s. hvalbök, grettistök og jökulrákir.

Fláajökull – Þorvarður Árnason

Hoffellsjökull er meðal stærri skriðjökla sem falla suður úr Vatnajökli. Hann hefur grafið sig djúpt í jökulsand, allt að 300 metra niður fyrir sjávarmál, en vegna hraðrar hopunar jökulsins er þar nú að myndast djúpt jökullón.
Hoffellsjökull skríður í gegnum forna megineldstöð  sem kennd er við Geitafell og var virk fyrir  5 – 6 milljónum ára. Vegna landriss og landrofs  má þar sjá berg sem myndast djúpt í skorpu  jarðar, t.d. í Geitafellsbjörgum austan  jökuls sem er kvikuinnskot og að  mestu úr gabbrói.

Hér getur þú skoðað fjölbreyttar gönguleiðir um þetta stórbrotna svæði mótað skriðjöklum og fornum eldstöðvum.

Hoffellsjökull/Geitafell – Þorvarður Árnason

Skaftafell og nágrenni

Umhverfi Skaftafells einkennist af miklum andstæðum. Skriðjöklar setja svip sinn á landið og yfir þeim gnæfa há og brött fjöll þar sem að Hvannadalshnjúkur í Öræfajökli rís hæst. Landið ber mikil merki rofs af völdum jökla og jökulvatna. Jöklar hafa gengið fram og hopað á víxl of náðu þeir mestir útbreiðslu um 1890, en hafa síðan farið minnkandi.

Öræfajökull/Skaftafell – Þorvarður Árnason

Jökulár hafa flæmst um og meðal annars borið fram efnið sem myndar Skeiðarársand. Árnar voru löngum miklir faratálmar en við brúun Skeiðarár 1974 opnaðist hringvegur um Ísland. Allt er þó breytingum háð og síðan 2009 hefur Skeiðará runnið til vesturs framan við jökulsporð Skeiðarárjökuls. Þar sameinaðist hún Gígjukvísl og fellur með henni til sjávar.

Skaftafellsjökull – Þorsteinn Roy Jóhannsson

Umhverfis Skaftafell er mikil eldvirkni. Árið 1362 gaus Öræfajökull mesta vikurgosi sem orðið hefur á Íslandi síðan sögur hófust. Öræfajökull gaus aftur árið 1727 en þá var gosið minna. Grímsvötn eru virkasta eldstöð og minntu rækilega á sig í maí 2011 með miklu öskugosi. Grímsvötn eru einnig kunn fyrir Skeiðarárhlaupin sem eiga upptök sín þar.

Skoðaðu gönguleiðir í kringum þetta kyngimagnaða svæði Skaftafells og nágrenni hér.

Lónsöræfi

Í Lóni, austasta hluta svæðisins, liggja Stafafellsfjöll sem liggja inn  Lónsöræfum. Lónsöræfin einkennast af tilkomumiklum líparít fjöllum, með klettóttum gljúfrum og öðru bergi sem saman skapa stórfenglegt sjónarspil lita. Svæðið er einnig gróskumikið og líklegt er að koma auga á hreindýr í djúpum dölunum. 

Illikambur – Þorvarður Árnason

Hægt er að velja úr ýmsum gönguleiðum sem gera Lónsöræfi tilvalin fyrir göngufólk. Vert er þó að hafa í huga að það getur verið snúið að komast þangað og mælt er með að afla sér upplýsinga staðkunnugra áður en lagt er af stað.

Skoðaðu gönguleiðir um undraveröld Lónsöræfa hér.

Þessi færsla er unnin úr efni frá heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs. Finndu fleiri gönguleiðir um Vatnajökulsþjóðgarð hér.
Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull