Menning og listir

Svavarssafn

HÖSKULDUR BJÖRNSSON

Uppsprettur - Innlit á vinnustofu

Í aðalrými og fremra rými

Stendur til 21.08

 

Vorið í Svavarssafni var að venju  tileinkað heimamönnum og list frá svæðinu. Að þessu sinni var sett upp sýningin Uppsprettur – Innlit á vinnustofu. Hún sýnir skissur og verk eftir listamálarann Höskuld Björnsson sem ættaður var frá Dilksnesi og veitir einstaka sýn inn í líf og vinnubrögð þessa listamanns og vel þess virði að skoða. Sýningin átti að opna 16. mars en vegna Covid-19 var hún ekki opnuð fyrr en 4. maí. Mun hún því fá að standa í sumar.

Í kjölfarið opnar sýning í samstarfi við Listasafn ASÍ í lok ágúst.

Listasafnið er opið virka daga 9-12 & 13-15
Í sumar um helgar 13-17

SVAVAR GUÐNASON

Út fyrir safnið; litir, leikur, form

Um Höfn á vegum Svavarssafns

Stendur til 18.09

 

Sumarsýning listasafnsins hefur árlega verið unnin út frá Svavari Guðnasyni. Sýningin verður með nýju og breyttu sniði þetta árið. Að venju verða sýnd verk Svavars í samtali við nústarfandi listamenn sem að þessu sinni eru börnin í bænum. Safnið ætlar að teygja angana út fyrir húsakynni sín og vera með sýningar á nokkrum stöðum í bænum. Sýningin Út fyrir safnið; Leikur, litir, form er fjölskyldusýning þar sem verk Svavars öðlast nýtt líf og börnin fá tækifæri til að taka þátt í síbreytilegri sýningu í sumar.

Sýningarnar verða á Bókasafninu í Nýheimum, í Sundlaug Hafnar og í Gömlubúð – Upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs. Hver sýning hefst með listasmiðju þar sem börnin fá tækifæri til að kynnast listamanninum, spreyta sig á abstraktlist og skapa verk á sýninguna sjálfa. Smiðjurnar eru ókeypis og opnar öllum en skráning fer fram á bókasafninu. Nánari dagskrá er hægt að sjá á facebook.com/Svavarssafn.

Á bókasafninu er síðan búið að að koma upp leiksvæði þar sem börnum er boðið að leika sér með lituð form í anda Svavars. Þar er hægt að koma í allt sumar á opnunartíma bókasafnsins mán-fim 9-17 og föstu 9-16.

Ástustofa verður á sínum stað í safninu sjálfu en þar er föst sýning á verkum eftir Svavar og  hægt að fræðast um listamanninn, horfa á myndbönd, lesa bækur og skoða verk. Verk eftir Svavar eru því sýnileg á fjórum stöðum í bænum í sumar.

Mikligarður

HLYNUR PÁLMASON

Sumar Málverk & Vetrar Skúlptúr

Sýning eftir verk Hlyns Pálmasonar á tveimur stöðum. Sýningin fer annarsvegar fram í Miklagarði við höfnina og á veitingastaðnum OTTO Matur & Drykkur

Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu

Lífið um borð

Í Stúkusalnum í Miklagarði opnaði ljósmyndasýningin Lífið um borð í tilefni Sjómannadagsins 7. júní. Þar gefur að líta myndir úr ljósmyndasafni Héraðsskjalasafnsins, flestar þeirra hafa sjómenn tekið úti á sjó en þeir voru snemma farnir að safna heimildum í formi ljósmynda og fáum við að njóta þess að skoða lífið um borð í gegnum linsuna þeirra. Til að skapa rétta andrúmsloftið í umgjörð sýningarinnar voru fengnir lánaðir gripir úr sjóminjasafni Byggðasafnsins.

Ef gestir vilja deila með okkur upplýsingum eða jafnvel sögum sem tengjast myndunum tökum við glöð á móti þeim. Þær má skrifa á pappír og setja í skipabókakassann sem er á staðnum eða senda okkur póst á [email protected]

 

Sýningin er opin frá kl 9-18 í allt sumar.

Byggðarsafn Austur-Skaftafellssýslu

Verbúðalífið

Byggðarsafn Austur-Skaftafellssýslu

Byggðasafnið er með tvær sýningar opnar, fasta sýningu í Verbúðinni  og tímabundnar sýningar í Gömlubúð. Verbúðin í Miklagarði er uppgerð íbúð en áður voru sjö verbúðir í Miklagarði. Tvær áhafnir rúmuðust í hverri íbúð auk tveggja ráðskvenna sem sáu um eldamennsku og þrif. Það er ótrúlegt að ekki sé lengra en um það bil 60 ár síðan að fólk bjó og vann við þessar aðstæður.

 

Sýningin er opin frá kl 9-18 í allt sumar.

Höfn og nágrenni

Þórbergur Þórðarson

Þórbergssetur

Á Hala er Þórbergssetur sem að er menningarsetur helgað minningu Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar. (1888 – 1974). Hann var fæddur á Hala í Suðursveit.  Þar er veglegt safn  og minjagripasala auk veitingareksturs. Hægt er að fara um safnið með hljóðleiðsögn og njóta texta og frásagnarsnilldar Þórbergs, en einnig er er hægt að panta leiðsögn heimamanna um safnið fyrir hópa. Þórbergssetur  er opið allan daginn frá 10:00 – 18:00 en veitingahúsið er opið til klukkan 20:00 á kvöldin.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Lífið á Höfn

Nýlega voru sett upp ný upplýsingarskilti á Höfn þar sem saga sveitarfélagsins er dregin fram. Á upplýsingaspjöldunum ferðumst við aftur í tímann að upphafi byggðar 1897 og skoðum lífið á Höfn fyrr á tímum. Við gerð skiltanna var stiklað á stóru í sögu Hafnar og megin þáttum samfélagsins gerð skil.

Skiltin eru 27 talsins og samhliða þeim var hannaður ratleikur fyrir fjölskylduna sem gaman er að hafa með sér þegar gengið er á milli skilta og sagan rifjuð upp. Ratleikurinn er aðgengilegur á vefsíðu Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar: mmh.hornafjordur.is.  Verkefnið var styrkt af Eignarhaldsfélagi Brunabótafélagi Íslands.