Almannaskarð

Almannaskarð er gamall fjallvegur 10 km. austan við Höfn. Skarðið skiptir sveitunum Nesjum og Lóni. Til ársins 2005 var Almannaskarðið hluti af þjóðvegi 1, vegurinn þótti hættulegur og var brattasti hluti þjóðvegarins í 17% halla og í skriðum svo slysahætta var mikil, ekki síst yfir vetrartímann en einnig var hætta á grjóthruni allt árið og vegurinn svo þröngur að erfitt var fyrir bíla að mætast.
Vegurinn vestanmegin er ekki lengur opinn fyrir bílaumferð en hægt er að leggja bílnum neðan við Almannaskarð og ganga upp. Heimamenn ganga margir reglulega upp skarðið sér til heilsubótar. Efst í Almannaskarði er útsýnisskífa sem gaman er að skoða. Útsýnið yfir jöklana, Höfn og sveitinar er stórfenglegt.  Hægt er að aka upp Skarðsdalinn, austan við göngin, að útsýnisskífunni en þangað liggur frekar grófur malarvegur.  Almannaskarð er 153 metrar á hæð á hæsta punkti, Skarðstindur er 488 metrar á hæð og er norðan megin við Almannaskarð, og úr suðri eru Hádegistindur, hann er 724 metrar á hæð og Klifatindur sem er 890 metrar á hæð. Árið 2005 voru vígð göng í gegnum Almannaskarð, þau liggja í 700 metra boga og með vegskálum eru göngin rúmir 1100 metrar og eru tvíbreið. Göngin voru mikil samgöngubót fyrir Hornfirðinga og alla Austfirðinga.
Hnit: GPS N64° 17.032‘, W15° 02.129‘.