Ósland - Visit Vatnajökull

Ósland

Afleggjarinn að Óslandi er nálægt smábátabryggjunni á Höfn. Þegar komið er upp á Óslandshæðina kemur í ljós gott útsýni yfir fjallahringinn umhverfis Höfn. Þar er líka gott útsýni yfir Hornafjarðarós sem er innsiglingin inn til Hafnar. Stundum hefur Óslandshæðin verið kölluð Gónhóll því þetta er vinsæll rúntur heimamanna til að sjá bátana sigla inn. Minnismerkið sem þar stendur er reist til heiðurs sjómönnum og mikilvægi þeirra í samfélaginu. Á skiltinu stendur – Minnisvarði um sjómenn og sjósókn Hornfirðinga og Austfirðinga – Minnisvarðinn er eftir Helga Gíslason og var afhjúpað á Sjómannadaginn árið 1988. Ár hver er lagður blómsveigur á minningardegi sjómanna til að minnast þeirra sem hafa látið lífið.

Á Óslandshæð er einnig upphaf Náttúrustígsins sem Náttúrustofa Suðausturlands hefur útbúið. Stígurinn liggur meðfram sjávarsíðunni þar sem hægt er að fræðast um sólkerfið á 2,8 km. Stígurinn sem endar við golfvöllinn er malbikaður og er því fær öllum. Við stíginn má finna steinagarð með stórum grjóthnullungum með helstu bergtegundum Suðausturlands ásamt kynningarskilti sem segir frá því hvernig bergið hefur myndast og hvaðan þeir eru teknir. Upplýsingar eru á hverjum steini um þyngd þeirra og bergtegund. Steinagarðurinn er til móts við verslunina Nettó og Nýheima. Hér má nálgast kort af Náttúrustígnum en einnig má fá kortið í Upplýsingamiðstöðinni í Gömlubúð.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í Óslandi og það er friðlýst svæði. Á varptíma þarf að fara varlega og á meðan kríuungarnir eru að verða fleygir þarf að gæta sín að keyra ekki yfir þá, því þeir sækja í veginn. Félag áhugamanna um fugla vaktar Ósland og setur inn upplýsingar um fuglaferðir á www.fuglar.is

Falleg gönguleið er umhverfis Óslandstjörn. Það er líka gaman að stoppa á Óslandstaga og horfa yfir jöklana og yfir á Suðurfjörur og Melatanga þar sem flugvöllur Hornfirðinga var frá árinu 1939 og allt til ársins 1965 þegar núverandi flugvöllur var tekinn í notkun.