Café Vatnajökull

Omnom saltkaramellu súkkulaðibita kaka með kaffinu á Café Vatnajökull

Við rætur Öræfajökuls er kaffihúsið Café Vatnajökull, sem var opnað árið 2017. Kaffihúsið er staðsett á Fagurhólsmýri og er ævintýri í sjálfu sér. Þar er selt nýmalað kaffi frá Kaffitár, ferskar samlokur og heimabakaðar kræsingar. Á gamla lagernum er nú komið gallerý sem prýðir ljósmyndir og minjagripi eftir öræfinginn, Einar Rúnar Sigurðsson.  Café Vatnajökull hefur einnig til sölu fallega muni sem eru hannaðir og búnir til af öðrum meðlimum fjölskyldunnar. Í útivistarhorninu finnur þú meðal annars gönguskó, húfur, vettlinga og margt fleira nytsamlegt fyrir ferðalagið.

Í sumar ætlar Café Vatnajökull að bjóða uppá súkkulaðibitakökur með kaffinu: annars vegar með saltkaramellu og hins vegar með yndislegu lakkríssúkkulaði sem bráðnar í munninum. Í júlí er stefnt að því að bæta við gómsætu heimagerðu konfekti á matseðilinn. Hugmyndin er að  vinna meira með lakkríssúkkulaðið og útbúa konfektið með lakkrísfyllingu frá Omnom.

Kaffihúsið er rekið af Öræfaferðum – Frá fjöru til fjalla – sem er ferðaþjónustufyrirtæki, stofnað af hinum goðsagnakennda Sigurði Bjarnasyni bónda á Hofsnesi í Öræfum. Árið 1990 hóf Sigurður að nýta land sitt til að ferja ferðamenn á hey kerru og dráttarvél út í Ingólfshöfða. Ingólfshöfðaferðin er vinsælasta ferð fyrirtækisins og virðist samblandan af hey kerru, Lundum og íslenskri náttúru alltaf gleðja alla gesti, nánast sama hvernig viðrar. Frumkvöðlablóð virðist ganga í ættir, því að afi Sigurðar, Páll Jónsson bóndi í Svínafelli, var fyrsti maðurinn til að ganga á Hvannadalshnúk, árið 1891. Sonur Sigurðar, Einar Rúnar, fetaði í fótspor langafa síns og hóf leiðsögn á hæsta tind Íslands árið 1994. Einar hefur því lengsta starfsaldur allra fjallaleiðsögumanna á landinu og hefur nú staðið yfir 300 sinnum á toppi Hvannadalshnúks.

Öræfaferðir bjóða einnig upp á einkaferðir eins og fjallaskíðaferðir, ísklifur, ísgöngur, ljósmyndaferðir í íshella, ljósmyndaferðir í Ingólfshöfða og ýmislegt annað skemmtilegt. Einar sér sjálfur um leiðsögn í öllum fjallaferðum og sér fjölskyldan um leiðsögn í Ingólfshöfða. Öræfaferðir voru einnig fyrsta fyrirtækið á íslandi til að bjóða daglegar brottfarir í íshella og hefur Einar fundið og nefnt flesta íshella í ríki Vatnajökuls. Einar býr ásamt fjölskyldu sinni á ættaróðalinu Hofsnesi og starfar öll fjölskyldan í ferðaþjónustu. Þau eru afar stolt af arfleifð sinni og bjóða ykkur að eiga með þeim ævintýralega stund í stórfenglegu umhverfi Vatnajökuls.

Kíktu í kaffi og upplifðu einstakt andrúmsloft í fallegu umhverfi Vatnajökuls.