Við byrjuðum hjónin ásamt börnum okkar sem voru átta, sex og tveggja ára og eins mánaða með sex herbergi. Þetta var með fyrstu bændagistingunum sem voru án baðs en með handlaug í hverju herbergi, húsið var byggt 1937 af ömmu og afa mannsins míns og var í burstabæjarstíl. Börnin tóku virkan þátt með mér í þessari vinnu eins og þau höfðu getu til og gaman af. Bóndinn sá um kúabúið og kindurnar.
Síðan var stækkað 1992 upp í 10 herbergi án baðs. 1995 byggðum við 60 fm matsal og eitt barn bættist í hópinn. Breyttum þá kálfafjósi í eldhús. 1997 byggðum við 20 herbergi með baði og setustofu. 2001 byggðum við 12 herbergi í viðbót og 250 fm eldhús og matsal. 2012 rifum við gamla húsið og byggðum upp í sama stíl átta herbergi, stórt og nýtt eldhús ásamt móttöku og sal. 2016 bættum við við 28 herbergjum og erum með fjölskylduvænt sveitahótel með 68 herbergjum. Við erum stolt af því að vera með fjölbreytt hráefni úr héraði og frá okkur og mestmegnis heimagerðan mat og brauð.
Núna notum við lakkrís Omnom súkkulaðið og saltkaramellu súkkulaðið í heimagerða súkkulaðiköku. Við erum að prófa okkur áfram í fleiri réttum með Omnom súkkulaðinu og skýrist það með haustinu hvernig til tekst.
Við erum hér með Jökla og þrjú jökullón í kringum okkur, þar sem er boðið upp á jeppaferðir og snjósleðaferðir. Á jökullónunum er boðið upp á rosalega flottar kajakferðir og siglingar á misstórum bátum. Eins eru fjölbreyttir möguleikar á gönguferðum.
Tækifærin eru alls staðar í kringum okkur stundum þurfum við ábendingar til að grípa þau.