Pakkhús

Glóðvolgur Omnom súkkulaði ganache á Pakkhúsinu

Pakkhúsið sjálft hefur sinnt ótal mismunandi hlutverkum í gegnum tíðina síðan það var reist árið 1932 úr efni enn eldri húsa sem höfðu verið rifin og endurspeglast það í sál hússins sem sést vel þegar fólk gengur inn. Pakkhúsið opnar svo sem veitingastaður sumarið 2012 í gamla pakkhúsinu niður á bryggju á Höfn. Fyrstu árin var eingöngu opið frá maí til september en frá 2016 hefur verið heilsársopnun. Staðurinn hefur á þessum tíma vaxið úr 50 sætum upp í 130. Nú er boðið upp á fjölbreyttan matseðil fyrir alla aldurshópa, en auk humars má fá fyrsta flokks lamb, önd og girnilega eftirrétti.

Pakkhúsið leggur áherslu á hráefni úr héraði, bæði af landi og úr sjó. Humarinn kemur ferskur beint af bátunum sem landa við bryggjuna, m.a. Sigurði Ólafssyni SF 44 sem landar beint fyrir utan gluggann. Á góðviðrisdögum er hægt að sitja úti á palli og njóta útsýnisins yfir bátana og hafnarlífið.

Omnom rétturinn okkar er Volgur cashew & súkkulaði ganache úr Omnom Tanzania súkkulaði með bökuðum höfrum, hafra vanilluís og mangó froðu. Rétturinn varð fyrir valinu þar sem okkur langaði til að gera góðann vegan eftirrétt og finnst okkur Omnom súkkulaðið smellpassa inn í þá hugsun sem við settum í réttinn.

Það er æðislegt að taka gönguferð um Óslandið fyrir eða eftir góða máltíð og oft er líf og fjör á bryggjunni.