Fláajökull

SJÁ NÁNAR

Hringleiðar eru sjaldgæfar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Hringleiðin sem hér er lýst verður eingöngu farin fyrir eigin vöðvaafli. Það helgast af því að á tæplega tveggja kílómetra kafla liggur hún um stíg sem eingöngu er ætlaður gangandi fólki. Hjólreiðafólk fær að fara þennan hluta gönguleiðarinnar svo að loka megi hringnum. Á nokkur hundruð metra kafla er slóðin svo grýtt að bera þarf hjólin. Restina af gönguleiðinni má hjóla sé þess gætt að halda sig eingöngu á stígnum og valda göngufólki ekki óþægindum. Auðvelt er að spilla landi og gróðri þarna og það má ekki gerast. Leiðin liggur áfram til suðvesturs eftir akfærum vegi ofan á stíflumannvirki. Sá vegur er fremur grófur.

Þar sem vatni jökullónsins er veitt í Hólmsá var göngubrú yfir vatnsfallið. Þangað keyra ferðamenn neðan frá Þjóðvegi nr. 1. Þó brúin sé farin er nálægðin við jökullónið ennþá aðdráttarafl. Vegurinn er dæmigerður íslenskur malarvegur, holóttur á köflum en ágætur undir reiðhjóladekkjum. Mjög svipaða sögu er að segja af eystri hluta hringleiðarinnar. Vegurinn frá þjóðvegi nr. 1 upp að tjaldstæðinu í Haukafelli er svipaður fyrrnefndum vegi að lengd. Álíka lítið er um brekkur. Yfirborð veganna er áþekkt.

Í suðri tengjast ofangreindir malarvegir með þjóðvegi nr. 1. Þegar þetta er skrifað þarf enn að deila honum með fjölda bíla. Til stendur að færa þjóðveginn sunnar. Þá verða þessir 5,5 km. fáfarnir. Þá verður enn betra að njóta stórbortins útsýnisins.

Hvergi þarf að vaða á þessari hringleið. Hana má komast þurrum fótum nema helst ef kjarrið milli tjaldsvæðis í Haukafelli og göngubrúar yfir Kolgrafardalsá er blautt. Þar þarf að leiða hjólið eða halda á því. Fyrir kemur að ólgandi vötn rjúfi skörð í vegi. Það væri sönn óheppni að lenda akkúrat í þannig kringumstæðum.

Hjólabókin 6. bók: Skaftafellssýslur eftir Ómar Smári Kristjánsson

Km: 24
Tími: Hálf dagleið (höf. 3,5 klst.)
Malbik: 5.5 km.
Hentar illa götuhjólum: 4.5 km.
Illfært öllum hjólum: 0.5 km.
2% halli og minna: 22 km.
2% til 5% halli: 1 km.
5% til 10% halli: 1 km.
Drykkjarvatn: Í Haukafelli
Varúð: Klungur á göngustíg og umferðarþungi á malbiki.

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull