Lónsheiði

SJÁ NÁNAR

Þetta er ein þeirra hringleiða þar sem mælt er með því að fara annan hringinn fremur en hinn. Þennan er betra að hjóla réttsælis. Ástæðan er þessi: Gamla alfaraleiðin yfir Lónsheiði er orðin að sundurgrafinni og grýttri slóð. Vestustu 3 km. eru 12% brattir. Það er of mikið til að venjulegt fólk geti notið þess að renna þar niður í lausu grjótinu. Það er beinlínis hættulegt. höfundur fór þá leið að ganga með hjóli sínu upp á efstu bungu og renna sér svo niður hinumegin, þar sem að brattinn er minni og undirlagið fastara í sér. Ljómandi skemmtun ef gætilega er farið, svig framhjá úrrennslum og grjóthnullungum innifalið.

Fyrir neðan heiðina er Starmýrardalur sem Selá rennur eftir. Fögur náttúrusmíð. Leiðin að ánni er vel jeppafær austanfrá. Jafnframt er hún auðveldari viðureignar en Lónsheiði fyrir reiðhjól en er samt ekki fyrir götuhjól. Aftur þarf að hjóla upp brekku og niður hinumegin. Miðað við að hjóla yfir sjálfa Lónsheiði er það létt verk og löðurmannlegt.

Það er auðvelt að finna leiðina framhjá Starmýrarbæjunum og niður á þjóðveg nr.1. Þar með er friðurinn úti næstu 23,5 km. Jafnvel á þessum austasta stað þessarar Hjólabókar er umferðarþunginn á þeim vegi að verða óbærilegur. Sem betur fer hafa verið gerð útskot í Þvottárskriðum og Hvalnesskriðum. Það er um að gera að nýta sér þau. Leiðin er mikið augnayndi. Hjólreiðafólk ætti að gera eins og bílafólk, að einbeita sér í umferðinni og njóta útsýnisins þar sem það er óhætt.

 

Hjólabókin 6. bók: Skaftafellssýslur eftir Ómar Smári Kristjánsson

Km: 38
Tími: Dagleið (höf. 7 klst.)
Malbik: 23.5 km.
Hentar illa götuhjólum: 13.5 km.
Illfært öllum hjólum: 0 – 3 km.
2% halli og minna: 18 km.
2% til 5% halli: 11 km.
5% til 10% halli: 5 km.
10% halli og meira: 4 km.
Drykkjarvatn: Víðast nóg.
Varúð: Mjög fáfarinn fjallvegur með engu símsambandi. Umferðarþungi á malbiki.

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull