Morsárdalur

SJÁ NÁNAR

Í sögu hjólabókanna er þetta fyrsta hringleiðin sem ekki er á neinum vegum eða vegslóðum heldur á stígum eingöngu. Í Vatnajökulsþjóðgarði eru ekki margir stígar sem má hjóla á en í Morsárdal er heil hringleið í ægifögru umhverfi. Hringleiðin er stutt en það segir ekki alla söguna. Helmingur hennar er seinfarinn, því hún er hið mesta torleiði, ýmist stórgrýtt, söndug eða á kafi í gróðri. Óhjákvæmilega lengist hjólatúrinn við það eitt að koma sér á staðinn sem er tæpa þrjá km. frá tjaldstæðinu í Skaftafelli. Ef þetta dugar ekki til að fá dagsskammt af hjólreiðum, þá má nýta tækifærið sem felst í að vera kominn inn í Morsárdal, og fara lengra inn í hann.

Þegar farið er frá Skaftafelli er mælst til þess að hjólreiðafólk noti akveginn fremur en göngustíginn. Hjólað er framhjá gulum vatnsdreka og upp að varnargarð og eftir það er leiðin að brúnni yfir Morsá auðrötuð. Skammt frá henni hefst hringleiðin. Merkingar eru góðar.

Nyrst á hringleiðinni, í Bæjarstaðaskógi, er rjóður með áningarborðum. Vestari leiðin þangað er 5 km. löng og er seinfarin. Höfundur leiddi hjól sitt yfir versta stórgrýtið. Í skóginum hylur birki en þó aðallega lúpína stíginn svo ferðin er hálfgert blindraverk. Tvær smáár tefja auk þess fyrir ferð fólks en geta líka verið uppspretta gleði fyrir fólk sem hefur gaman af því að hjóla í vatni. Í þurri tíð er ekki víst að þessar át nái alla leið niður á hringleiðina áður en þær hripa niður í jörðu. Eystri leiðin að áningarborðunum, 4 km. löng, er auðveld yfirferðar. Lausasandur er á stöku stað til trafala en bara á stuttum köflum.

Hjólabækurnar lýsa hringleiðum. Höfundur þeirra yrði samt ekkert móðgaður þó fólk sleppti vestri helmingnum og hjólaði bara fram og til baka hina greiðari leið. Það er auðveldara að njóta stórbrotins útsýnisins ef ekki þarf stöðugt að horfa niður fyrir pedalana til að steypast ekki á höfðið í grjóturð eða lúpínubeðju.

 

Hjólabókin 6. bók: Skaftafellssýslur eftir Ómar Smári Kristjánsson

Km: 9
Tími: Brot úr degi
Malbik: 0 km.
Hentar illa götuhjólum: 9 km.
Illfært öllum hjólum: 0.5 km.
2% halli og minna: 9 km.
Drykkjarvatn: Norðvestast
Varúð: Klungur á göngustíg

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull