Myndatökur, Jöklar, Höfn, Gönguferðir, Náttúra, Skoðunarferðir, Hugmyndir

Faldar perlur í ríki Vatnajökuls

Ferðamenn á Suðausturlandi heimsækja oft bara vinsælustu ferðamannastaðina og fara þannig því miður á mis við marga aðra magnaða áfangastað sem ríki Vatnajökuls býður upp á. Það er nefnilega svo margt fleira á þessu svæði en fossar, svartir sandar og jökullón og oftar en ekki leynast faldar perlur rétt við veginn sem hægt er að skoða. Þar sem við höfum nú búið á þessu svæði um nokkurra ára skeið langar okkur að deila nokkrum af okkar uppáhalds stöðum.

Sandfell

Til að byrja með mælum við eindregið með því að verja smá tíma á sögustaðnum Sandfelli. Fyrir mörgum árum var Sandfell kirkjustaður og prestssetur en vegna eldgosa og hlaupa úr jöklinum lagðist það í eyði. En það fallega er að árið 1923 plöntuðu tvær ungar konur sem bjuggu að Sandfelli litlu reynitré við prestssetrið. Tréð hefur vaxið síðan og er nú orðið að stærðarinnar margstofna verðlaunatré en Garðyrkjufélagið útnefndi þennan þrautseiga reyni tré ársins árið 2015. Þannig er Sandfell orðið að fullkomum stað fyrir stutt stopp og myndatöku við Sandfellsreyninn sem verður að teljast merkilegur fyrir að hafa haldið velli í allan þennan tíma við svo óblíðar aðstæður!

Hof

Skammt frá Sandfelli, rétt við veginn er bærinn Hof en þar stendur falleg torfkirkja. Torfkirkjur eru sjaldgæf sjón á Íslandi og Hofskirkja þar af leiðandi leiðandi frábær viðbót við myndaalbúm ferðarinnar.

Hoffellsjökull

Annar áhugaverður áfangastaður sem okkur finnst vert að nefna er Hoffellsjökull, skriðjökull ekki svo langt frá Höfn í Hornafirði. Rétt við bílastæðið er útsýnisstaður þar sem þú getur horft yfir allan skriðjökulinn og jökullónið við hann. Á veturna mælum við með því að kíkja þangað um kvöld en þá gæti hugsanlega gefist tækifæri á að verða vitni að hinu fallega sjónarspili sem myndast þegar norðurljósin speglast í lóninu. Þess fyrir utan er þetta frábær útivistarperla á sumrin með æðislegum, merktum göngustíg.

 Hoffell

Á bakaleiðinni frá jöklinum er tilvalið að staldra við í Hoffelli og láta líða úr sér í náttúruböðunum sem þar er að finna. Fyrir hóflegan aðgangseyri fær maður aðgang að fimm ólíkum pottum sem hver og einn er með ólíku hitastigi. Við elskum þennan stað og förum oft þangað, svo hver veit nema að við hittum þig þar!

Skútafoss

Næst langar okkur að kynna fyrir þér þann foss sem okkur finnst fallegastur í ríki Vatnajökuls – Skútafoss. Þú finnur Skútafoss rétt austan við Höfn í Hornafirði en hann er ekki mjög þekktur meðal ferðamanna. Hann er engu að síður mjög aðgengilegur og það er mögulegt að taka myndir af honum í heild frá nærstöddum kletti. Fossinn er fallegur allan ársins hring og fellur ofan í fallegt, blátt, ískalt lón. Svo er lítill hellir rétt við fossinn sem hægt er að fara inn í og ná draumkenndum myndum frá öðru sjónarhorni. Ofan af nærstadda klettinum er fossinn stórkostlegur ásýndar og fjöllin sem umlykja hann minna mann á hálendið.

Lón

Að lokum, ef þú ætlar að verja lengri tíma en einum degi í ríki Vatnajökuls, þá mælum við alltaf með því við fólk að fara í útsýnisgöngu á svæðinu við Lón. Lón er í aðeins 30 mínútna aksturvegalengd frá Höfn í Hornafirði. Þar má heimsækja Hvannagil, virða fyrir sér litrík fjöllin og aðra einstaka náttúrufegurð. Á sumrin er útsýnið alveg stórkostlegt og margt að skoða og uppgötva og ef heppnin er með þér gætu kindur leynst á vappi í sumarsælunni. Þú getur valið milli stuttra gönguleiða frá sumarhúsabyggðinni og lengri leiðar sem hefst í Stafafelli. Hvort sem þú velur þá muntu ekki verða fyrir vonbrigðum með þetta fallega svæði.

 

Grein eftir Martina Karascakova

Myndir :
Martina Karascakova
IG @Martina_Mladka

Ladislav Skala
IG @buttinthenature

Íslensk þýðing: Ólöf Arnalds
Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull