Eldur og ís

Það er magnað að upplifa stóru náttúruöflin sem móta Ísland, sérstaklega þegar þau koma saman og mynda einstakt landslag, eins og sjá má í Vatnajökulsþjóðgarði sem er að finna á Suðausturlandi um 380 km frá Reykjavík.

Ævitýrið byrjar strax á leiðinni frá Reykjavík en á henni er að finna fjöldan allan af áhugaverðum stöðum. Það freistar í öllu falli að stoppa og taka myndir af öllu ótrúlega landslaginu sem fyrir ber og svo auðvitað íslenska hestinum.

Þegar ég útskrifaðist sem líffræðingur flutti ég til Íslands til að láta æskudraum minn um að vinna í nánd við náttúruna og rannsaka hana verða að veruleika. Eftir nokkur ár á Íslandi fékk ég loksins tækifæri til að keyra að Jökulsárlóni og heimsækja síðan íshellana í Vatnajökli. Heimsóknatímabilið er stutt og alltaf á veturna, því þakið á hellunum getur brotnað og fallið saman hvenær sem er ef hitastigið fer yfir frostmark. Ástandið verður svo enn hættulegra og óstöðugra á meðan og eftir að rignir á þessu svæði.

Maður þarf alltaf að hafa í huga hversu óútreiknanlegt veðrið er ef maður hyggur á útiveru á Íslandi. Vindurinn getur verið alveg brjálæðislega sterkur og þegar illa viðrar er umferð um marga vegi stöðvuð, svo það er mikilvægt að skoða veðurspána áður en maður heimsækir jökulinn.

Fyrsta reynslan mín af íshellunum var ótrúleg. Á ferð minni um þá í hópi annarra ferðamanna tók ég óteljandi myndir og myndbönd. Ég trúði varla því sem ég sá! Það var svo erfitt meðtaka það að blái ísinn væri raunverulegur og að myndirnar á Instagram væru algjörlega óunnar. Þessi eini leiðangur reyndist alls ekki nóg fyrir mig, svo ég ákvað að senda skipuleggjendum ferðarinnar ferilskrána mína og sækja um starf.

Næsta vetur vann ég og bjó við stærsta jökul í Evrópu! Vinsælustu hellarnir eru staðsettir í Breiðamerkurjökli sem kemur út úr Vatnajökli. Breiðamerkurjökull þekur 900 ferkílómetra og þykkasti hluti hans er 600 metrar, svo efst á honum má finna brunna eða sprungur sem liggja frá yfirborðinu allt að 600 metra niður.

Eldurinn!

Þetta dýnamíska jafnvægi milli íss og eldvirkni er hvergi að finna annars staðar í heiminum. Undir Vatnajökli liggja sjö eldstöðvakerfi en eitt þeirra fóðrar Grímsvötn sem eru eitt virkasta eldfjall landsins. Auk þess eru eldstöðvakerfin Öræfajökull, Bárðarbunga, Kverkfjöll, Þórðarhyrna, Hamarinn og Esjufjöll. Um 60% jökulsins liggur ofan á virkum eldfjöllum sem gefur einstakt tækifæri á að rannsaka samspil jökla og eldfjalla þar sem jökullinn sverfur í burtu nýja bergið sem myndast þegar nýja hraunið kólnar.

Þetta er ástæðan fyrir því að jöklar geta verið gífurlega hættulegir. Aldrei reyna að ganga á jökul eða heimsækja íshella upp á eigin spýtur. Jöklarnir eru þaktir sprungum sem fólk sem hefur ekki hlotið viðeigandi þjálfun tekur hreinlega ekki eftir. Ólíkir hlutar Breiðamerkurjökuls skríða á mismunandi hraða, þó svo að dæmigerður hraði á skriðjökli sé milli 30 og 200 metra á ári. Þetta gerir að verkum að landslagið breytist stöðugt þannig að ferðir upp á jökulinn og leit að íshellum kallar á endalausar áskoranir.

 

Ísinn!

Ár hvert, áður en skoðunarferðirnar um hellana hefjast, þurfa leiðsögumenn og bílstjórar að byrja á því að leita að nýjum hellum í jöklinum. Þessi leit getur tekið margar vikur, þar sem Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu og þekur í dag 8% af Íslandi eða 7.700 ferkílómetra og hún er eitt af því sem gerir starf leiðsögumannsins hvað mest spennandi. Sá eða sú sem finnur nýjan, töfrandi íshelli fyrst fær líka að gefa honum nafn, sem er mikill heiður.

Þegar hellarnir eru orðnir öruggir hefst vertíðin fyrir alvöru og gestir fara að streyma í þjóðgarðinn. Ferðin að jöklinum er mögnuð. Maður situr í einum af stærstu jeppum landsins, sér allan skalann af dýrum (hreindýrum, refum, rjúpu o.s.frv.) og landslag sem fær mann til að efast um að maðurinn hafi nokkru sinni stigið niður fæti á tunglinu, enda er þetta svæði þar sem kvikmyndir á borð við „Interstellar“ eru teknar upp. Maður fer algjörlega í annan heim.

Jepparnir fara með mann eins langt og hægt er en stundum þarf að ganga nokkra kílómetra, svo það er mikilvægt að vera vel búinn í góðum skóm og útivistarfötum og tilbúinn fyrir einstaka upplifun. Áður fyrr entust hellarnir í mörg ár áður en þeir féllu saman og hurfu að eilífu, en með hlýrra loftslagi og lengri regntímabilum geta þeir nú bráðnað á aðeins fimm mánuðum. Það sem þú sérð þegar þú heimsækir íshelli í Ríki Vatnajökuls mun þannig aldrei haldast í sama horfi.

 

Blái liturinn!

Hellarnir eru frægir fyrir þennan rafmagnaða bláa lit sem margir þeirra skarta, en þó ekki allir!

Ísinn í hellunum er fullkomlega ólíkur þeim sem við eigum að venjast. Jökullinn er nefnilega myndaður úr ís sem er fullkomlega laus við hvítar loftbólur og ekki gerður úr vatni sem frýs við kulda. Hann verður til úr snjó undir þrýstingi sem gerir að verkum að hann er þykkur, þéttur og gamall og dregur í sig allt litrófið nema bláan! Þess vegna er blái liturinn svo áberandi í sumum hellum. Svo eru hellar sem eru hvítir, blágrænir, grænir og jafnvel svartir, rétt eins og vatn sem tekur á sig ólíka liti eftir birtuskilyrðum og dýpi. Jökulísinn er í raun eins og risastórt frosið haf.

Jöklar myndast og stækka á svokölluðu ákomusvæði sem liggur gjarnan mun hærra uppi á jöklinum en skriðjöklarnir sem koma undan honum. Ástæðan fyrir því er að snjórinn sem fellur á um vetur bráðnar ekki allur yfir sumarið, sem þýðir að næsta vetur fellur nýr snjór sem ýtir niður og þéttir snjóinn sem er til staðar fyrir þannig að hann breytist á endanum í jökulís.

Flestir gestir eru meðvitaðir um að einn daginn munu töfraheimur íshellanna hverfa alveg og við gætum verið með síðustu kynslóðum á jörðinni til að sjá og njóta þessarar einstöku náttúrufegurðar. Bráðnun Vatnajökuls í heild mun hækka sjávarmál á heimsvísu um 1 cm sem spáð er að muni gerast á næstu 200 árum. Árið 2019 var jarðarför Okjökuls haldin á Íslandi, en hann var fyrsti jökullinn á landinu til að hverfa alveg. Við vonum að Vatnajökull geti enst í margar aldir og þannig gefið þúsundum gesta innblástur til að huga að náttúrunni áður en það er of seint og hugsa út í það hvers vegna við gerðum ekki nóg. Þegar maður nemur staðar á í einum af þessum stórfenglegu íshellum finnur maður sannarlega til smæðar sinnar og hugsa sér að hellarnir sem við erum að skoða eru aðeins rétt undir yfirborði jökulsins.Geturðu ímyndað þér hvað gæti leynst ef maður færi dýpra? Geturðu ímyndað þér hverju við höfum að tapa?

Myndir og texti:

Daniel González
IG @dani_gonzape
Meðlimur í Ocean Missions NGO

 

Íslensk þýðing: Ólöf Arnalds

Aðrir möguleikar

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull