Fjöll, Myndatökur, Höfn, Gönguferðir, Náttúra, Hugmyndir

Fjöll í ríki Vatnajökuls sem þú verður að mynda

Ríki Vatnajökuls skartar gríðarlegum fjölda náttúruperla sem er þess virði að heimsækja. Vestrahorn er eitt þekktasta fjallið og munum við fjalla um það hér, auk þriggja annarra sem fanga gjarnan athygli gesta. Öll eru þau nálægt veginum, svo ef þú ert í nágrenninu er um að gera að nýta tækifærið og smella af!

Lómagnúpur

Við ætlum að byrja á Lómagnúpi, sem er að finna á milli Kirkjubæjarklausturs og Skaftafellsþjóðgarðs, á mörkum ríkis Vatnajökuls til vesturs. Lómagnúpur stendur á hinum víðfeðma Skeiðarársandi, sem þýðir að á góðum degi sést til jafnvel til hans úr nokkurra kílómetra fjarlægð. Fjallið er vægast sagt mikilfenglegt svo maður finnur fljótt til smæðar sinnar nálægt því. Lómagnúpur nýtur sín hvað best í logni, því þá sérðu líka spegilmynd hans í tjörnunum sem umlykja hann. Eins er hægt að mynda hann frá öðru sjónarhorni og hafa fallega brú yfir jökulá í forgrunni. Á sumrin sést hvernig Lómagnúpur er að mestu þakinn grænum mosa nema efsti hlutinn sem er alveg svartur, en þessar andstæður eru sérlega grípandi á mynd. Það ætti því að vera auðvelt fyrir hvern sem er að ná flottum myndum af Lómagnúpi sem lyfta albúminu upp á hærra plan! Í öllu falli ættirðu að staldra við og taka inn alla náttúrufegurðina sem blasir við á þessum stað.

Vestrahorn

Næsta fjall á listanum er sjálft Vestrahorn sem stendur á Stokksnesi nálægt Höfn í Hornafirði. Vestrahorn er sígilt myndefni, enda fagurt á að líta allan ársins hring. Umhverfið skartar fínlegum svörtum sandhólum og ölduróti Atlantshafsins sem hvort tveggja gerir myndirnar enn fallegra. Við fjallsræturnar stendur lítið víkingaþorp sem var upprunalega byggt sem leikmynd árið 2009 og gefur innsýn í liðna tíma. Margir ljósmyndarar bíða við ströndina tímum saman til þess eins að fanga Vestrahorn baðað norðurljósum á vetrum eða í bjarma miðnætursólarinnar þegar sumarið stendur sem hæst og ná þannig myndum sem eru hreinlega eins og úr öðrum heimi. Frægð Vestrahorns nær langt út fyrir landsteinana en það hefur t.d. birst í indverskum Bollywood myndum – enn ein ástæðan fyrir að staldra við og taka nokkrar myndir!

Brunnhorn

Rétt aftan við Vestrahorn er annað, minna fjall sem heitir Brunnhorn. Það sem gerir Brunnhorn áhugavert er að frá annarri hliðinni séð minnir það helst á merki ofurhetjunnar Batman. Reyndar svo mjög að heimamenn kalla það einfaldlega bara Batman fjallið í daglegu tali. Brunnhorn á sér þó fleiri hliðar og við mælum með þeim öllum ef þú ert á höttunum eftir fallegum náttúrumyndum.

Eystrahorn

Síðast en ekki síst viljum við nefna Eystrahorn sem er að finna nálægt veginum milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs. Eystrahorn markar landsvæði Ríkis Vatnajökuls til austurs. Það minnir að mörgu leiti á Vestrahorn að lögun og skartar mikilli litadýrð, allt frá grænum og gulum yfir í appelsínugulann. Eystrahorn er oftast ljósmyndað frá Hvalnesi, en þar stendur líka fallegur viti sem gaman er að heimsækja. Stundum þegar hefur rignt yfir daginn myndast litlar tjarnir við fjallið og endurvarpa spegilmynd þess í heild sinni sem hægt er að ná flottum myndum af.

Lómagnúpur, Vestrahorn, Brunnhorn og Eystrahorn búa hvert fyrir sig yfir ólíkum sjarma sem stendur fyrir sínu. Það er því góð byrjun að sækja þau heim ef þig langar að ná fallegum myndum í Ríki Vatnajökuls.

Blog: @martina_mladka
Photos: @buttinthenature , @martina_mladka

Íslensk þýðing: Ólöf Arnalds
Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull