Ingólfshöfði er einangruð eyja milli svartra sanda suðurstrandar Íslands og Norður-Atlantshafsins. Höfðinn er á milli Skaftafells og Jökulsárlóns og staðsetning hans veldur því að þar blómstrar fuglalíf og er höfðinn heimili þúsunda fugla. Þar má nefna lunda, álku, fýl, langvíu og skúm auk margra annarra tegunda. Frábært útsýni er úr höfðanum en til að komast þangað þarf að fara með reyndum leiðsögumönnum þar sem hættulegt er að aka á blautum sandinum auk þess sem höfðinn er á einkalandi. 

Ingólfshöfði - Visit Vatnajökull

Ingólfshöfði - Visit Vatnajökull

Ingólfshöfði er 76 metra hár og nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum að talið er, en hann kom þar að landi með fjölskyldu sinni og eyddi fyrsta vetri sínum þar.

Það er lítið fjölskyldufyrirtæki í eigu heimamanna sem býður upp á ferðir í höfðann til að skoða fegurðina og fuglalífið. Á vorin og sumrin er sérlega ánægjulegt að fara út í höfðann og sjá þar þúsundir fugla í varpi auk þess sem mögulegt er að sjá hvali frá höfðanum.

Gestir sem hyggja á ferð í Ingólfshöfða safnast saman á mætingarstað og þaðan er farið með traktor sem dregur á eftir sér heyvagn með farþegunum. Ferðin yfir í höfðann tekur um 25 mínútur hvora leið og er miðað við að vera um eina og hálfa klukkustund á staðnum. Byrjað er á göngu upp brattann sandslóða og þar á eftir í gegnum smá kletta. Þegar upp á höfðann er komið er gangan nokkuð auðveld og er gengið eftir grasgrónu flatlendi með mörgum stoppum á leiðinni.

Það er mikilvægt að vera með góðan útivistarfatnað þar sem svæðið er fremur opið og erfitt að leita skjóls ef veður er vont. Oft er þetta svæði berskjaldað fyrir rigningu og vindi, stundum sandstormi. Aftur á móti er oft hægt að vera bara á bolnum og í stuttbuxum, sérstaklega á sumrin. Hlífðarfatnaður er ekki skaffaður, því er mælt með því að undirbúa sig fyrir hvaða aðstæður sem er þar sem ekki er hætt við ferðir nema það sé mjög sterkur vindur.

Ingólfshöfði - Visit Vatnajökull

Ferðir í Ingólfshöfða eru vinsælar meðal ljósmyndara því þar gefst oft kostur á að taka einstakar myndir af lundum og öðrum fuglum. Gott er því að taka myndavélina með ásamt sjónauka. Vert er að hafa í huga að stundum er sandfok og þá er gott að vera með góðan bakpoka til að hlífa ljósmyndabúnaði. Ingólfshöfði er frábær til myndatöku og virkilega áhugaverður staður sem gaman er fyrir alla fjölskylduna að skoða.

Ingólfshöfði - Visit VatnajökullIngólfshöfði - Visit Vatnajökull

Ingólfshöfði - Visit Vatnajökull

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull