Skaftafell í Öræfum var einn af einangraðari stöðum á Íslandi fram að opnun Skeiðarárbrúar árið 1974, en þar með opnaðist hringvegurinn um Ísland. Árið 1967 var Skaftafell friðlýst sem þjóðgarður, en með síðari stækkunum árin 1984 og svo aftur 2004 náði þjóðgarðurinn í Skaftafelli yfir 4.807 ferkílómetra svæði. Í dag tilheyrir Skaftafell Vatnajökulsþjóðgarði sem stofnaður var árið 2008, og hefur frá árinu 2019 verið skráður á heimsminjaskrá UNESCO.
Skaftafell er þekkt sem einn af fegurri stöðum Íslands þar sem mætast hvítir jöklar, svartir sandar og grænar mosabreiður. Svæðið er ein af gersemum Vatnajökulsþjóðgarðs; það býður upp á margar merktar gönguleiðir, gott útsýni yfir náttúruperlur og er fullkominn staður til að njóta alls þess fallegasta í þjóðgarðinum. Gestastofan í Skaftafelli veitir allar nauðsynlegar upplýsingar um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans, gönguslóða, náttúrulíf, sögu svæðisins og afþreyingu. Þar er einnig safn um jökla og eldstöðvar í nágrenninu og áhrif þeirra á byggðarlagið í kring. Skaftafell er staður sem allir verða að sjá með eigin augum.
Stuttir og auðfarnir stígar leiða að Svartafossi í Skaftafelli sem er einn af frægustu fossum á Íslandi. Svartifoss er um 20 metra hár og dregur nafn sitt af óvenju reglulegum svörtum basaltstuðlum sem ramma hann inn. Gangan að fossinum er um einn og hálfur kílómetri, hefst við gestastofuna í Skaftafelli og tekur um 45 mínútur.
Fyrir þá sem hafa aðeins lengri göngur í huga eru Morsárdalur, Bæjarstaðaskógur og Kristínartindar spennandi kostir. Hér er hægt að finna nánari upplýsingar um gönguleiðir í Skaftafelli. Skaftafell er jafn vinsæll áfangastaður að vetri til eins og að sumri. Það er allt öðruvísi upplifun að koma þangað um vetur þegar jöklarnir taka gjarnan á sig fallega, hvíta og bláa liti og eru áberandi andstæða þess útlits sem þeir skarta að sumarlagi.
Einkarekin fyrirtæki bjóða upp á leiðsögugöngur á jökli og aðra afþreyingu innan þjóðgarðs. Hér má finna fyrirtæki sem bjóða upp á ferðir í nágrenni Skaftafells.