Ósland - Visit Vatnajökull
Gönguferðir, Náttúra, Skoðunarferðir, Hugmyndir

Náttúrustígurinn – Ósland

Í Óslandi eru fallegar gönguleiðir og mikið og fjölbreytt fuglalíf sem gaman er að skoða. Ósland var eitt sinn eyja en er í dag tengt meginlandinu, þar er fjölskrúðugt fuglalíf og kríur mjög áberandi á varptímabilinu.

Göngustígur er í kringum Óslandstjörnina og meðfram strandlengjunni. Á hæðinni sjálfri, sem nefnd er Óslandshæð, er minnisvarði um sjómenn og upplýsingaskilti um umhverfið. Þaðan er frábært útsýni yfir fjallahringinn, góð jöklasýn á Öræfajökul og til Vestrahorns í austri.

Við vestari jaðar bæjarins liggur göngustígur meðfram strandlengjunni með dásamlegu jöklaútsýni. Stígurinn er einnig mjög hentugur staður til að njóta stjörnubjartra nátta og horfa eftir norðurljósum yfir vetrartímann. Náttúrustofa Suðurlands tók þá ákvörðun ásamt Hornafjarðarbæ að helga stíginn náttúrunni í víðara samhengi og er hann því kallaður Náttúrustígurinn.

Meðfram stígnum er smækkað líkan af sólkerfinu, pláneturnar skalaðar niður með stærð og fjarlægð í réttum hlutföllum. Sólin sjálf er á Óslandshæðinni og svo dreifast pláneturnar um stíginn. Upplýsingaskilti er við hverja plánetu.

Vegalengdin frá sólinni á Óslandshæð að síðustu plánetunni, Neptúnusi, er 2.8 kílómetrar og það tekur innan við klukkustund að ganga leiðina. Upplýsingaskilti um Plútó stendur við enda stígsins hjá golfvellinum við Silfurnes og markar það enda Náttúrustígsins sjálfs.

Á leið um Náttúrustíginn, til móts við verslunina Nettó, er að finna steinagarð með helstu bergtegundum svæðisins og þar er einnig gott að setjast niður og borða nesti.

Hér má finna kort af Náttúrustígnum og steinagarðinum.

Ósland er einnig frábær staður til að horfa á norðurljósin að vetri til.

Stutt myndband um Náttúrustíginn

 

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull