Gönguferðir, Náttúra, Skoðunarferðir, Hugmyndir

Vestrahorn – Hvernig kemst ég þangað?

Á þjóðvegi 1 er ekið í austurátt frá Höfn og rétt áður en komið er að jarðgöngunum í gegnum Almannaskarð er beygt til hægri inn á ómerktan malarveg. Hann er rúmlega fimm kílómetrar að lengd að Vestrahorni og sandfjörunni.

Eitt af fyrstu landnámsbýlum landsins var við Horn, byggt af Hrollaugi Rögnvaldssyni en faðir hans var Rögnvaldur jarl af Mæri í Noregi.

Sveitarfélagið Hornafjörður, sem og nokkur náttúruundur innan þess, dregur nafn sitt af þessum landnámsbæ. Svæðið er í um það bil 10 mínútna akstursfjarlægð frá bænum Höfn. Horn er undir fjallinu Vestrahorni sem er 454 metra hátt og virkilega athyglisvert en jarðfræðilega samanstendur Vestrahorn af mörgum áhugaverðum bergtegundum og ber einstaka liti sem og lag. Vestrahorn er bæði vinsæll staður meðal heimamanna og ferðamanna en fjöllin og náttúrudýrðin þar eru einstök, svæðið er því mjög vinsælt meðal ljósmyndara.

Þess má geta að í seinni heimsstyrjöldinni fengu Bretar og síðar NATO að starfrækja þar radarstöð. Enn er hægt að keyra þar að en stöðin hefur þó verið fjarlægð að einhverju leyti.

Vinsamlegast athugið að svæðið er í einkaeigu og því þarf að greiða gjald fyrir að fara þar um og skoða, gjaldið er greitt í kaffihúsinu við bílastæðið.

Fallegar gönguleiðir eru í nágrenninu og hægt er að fá bækling á kaffihúsinu til að kynna sér þær. Við Stokksnes er víkingaþorp sem byggt var sem leikmynd vegna kvikmyndar sem Baltasar Kormákur hugðist taka þar en hætt hefur verið við þau áform. Víkingaþorpið stendur enn þó það sé farið að láta á sjá.

Að heimsókn á Stokksnes lokinni er gaman að aka um jarðgöngin til austurs, taka afleggjara á vinstri hönd fljótlega eftir að komið er út úr þeim og aka upp Skarðsdalinn að útsýnisskífunni en þangað liggur frekar grófur malarvegur. Útsýnið yfir jöklana, Höfn og sveitinar er stórfenglegt. Þar er einnig hægt að setjast niður og borða nesti. Allt fram til ársins 2005 lá þjóðvegurinn um Almannaskarð sem var hættuleg og brött leið. Vegurinn vestanmegin er ekki lengur opinn fyrir bílaumferð en hægt er að leggja bílnum neðan við Almannaskarð og ganga upp. Heimamenn ganga margir reglulega upp skarðið sér til heilsubótar.

Hnit fyrir Stokksnes og Horn: GPS N64° 15.295‘, W14° 59.734‘.

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull