Hjólabókin 6. bók: Skaftafellssýslur eftir Ómar Smára Kristinsson sem kom út árið 2019. Í bókinni fer Ómar hjólandi um Skaftafellssýslur; sem í skiptist upp í Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður.
Viltu sjá hvað er fyrir utan þjóðveg nr.1? Viltu komast úr fjölmenninu? En viltu samt sem áður njóta fegurðar og hrikaleika íslenskrar náttúru?
Hér er gerð grein fyrir þremur hjólreiðaleiðum innan ríkis Vatnajökuls.
Morsárdalur
Fjarri bílum í fögrum dal
Í sögu hjólabókanna er þetta fyrsta hringleiðin sem ekki er á neinum vegum eða vegslóðum heldur á stígum eingöngu. Í Vatnajökulsþjóðgarði eru ekki margir stígar sem má hjóla á en í Morsárdal er heil hringleið í ægifögru umhverfi. Hringleiðin er stutt en það segir ekki alla söguna. Helmingur hennar er seinfarinn, því hún er hið mesta torleiði, ýmist stórgrýtt, söndug eða á kafi í gróðri. Óhjákvæmilega lengist hjólatúrinn við það eitt að koma sér á staðinn sem er tæpa þrjá km. frá tjaldstæðinu í Skaftafelli. Ef þetta dugar ekki til að fá dagsskammt af hjólreiðum, þá má nýta tækifærið sem felst í að vera kominn inn í Morsárdal, og fara lengra inn í hann. Meira um þessa ævintýralegu leið hér.
Fláajökull
Í ríki jökla
Hringleiðar eru sjaldgæfar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Hringleiðin sem hér er lýst verður eingöngu farin fyrir eigin vöðvaafli. Það helgast af því að á tæplega tveggja kílómetra kafla liggur hún um stíg sem eingöngu er ætlaður gangandi fólki. Hjólreiðafólk fær að fara þennan hluta gönguleiðarinnar svo að loka megi hringnum. Á nokkur hundruð metra kafla er slóðin svo grýtt að bera þarf hjólin. Restina af gönguleiðinni má hjóla sé þess gætt að halda sig eingöngu á stígnum og valda göngufólki ekki óþægindum. Auðvelt er að spilla landi og gróðri þarna og það má ekki gerast. Leiðin liggur áfram til suðvesturs eftir akfærum vegi ofan á stíflumannvirki. Sá vegur er fremur grófur. Meira um leið í ríki jökla hér.
Lónsheiði
Fámenni á fjalli og fjölmenni í skriðum
Þetta er ein þeirra hringleiða þar sem mælt er með því að fara annan hringinn fremur en hinn. Þennan er betra að hjóla réttsælis. Ástæðan er þessi: Gamla alfaraleiðin yfir Lónsheiði er orðin að sundurgrafinni og grýttri slóð. Vestustu 3 km. eru 12% brattir. Það er of mikið til að venjulegt fólk geti notið þess að renna þar niður í lausu grjótinu. Það er beinlínis hættulegt. höfundur fór þá leið að ganga með hjóli sínu upp á efstu bungu og renna sér svo niður hinumegin, þar sem að brattinn er minni og undirlagið fastara í sér. Ljómandi skemmtun ef gætilega er farið, svig framhjá úrrennslum og grjóthnullungum innifalið. Meira um þessu fámennu og fallegu leið hér.