Höfn, Matur, Hugmyndir

Veitingastaðir og matur úr héraði

Veitingastaðir á Höfn

Sjávarþorpið Höfn, sem síðar varð einnig gríðarlega vinsælt hjá ferðamönnum, býr yfir miklu úrvali af frábærum mat úr héraði, framleiddum af bændum og veiddum af sjómönnum staðarins. Hér ætlum við að segja aðeins frá þeim fjölbreyttu og góðu veitingastöðum sem eru á Höfn en minnum á að þeir eru margfalt fleiri í ríki Vatnajökuls.

Áratugum saman var sjávarútvegur aðalatvinnugreinin á Höfn. Ríki Vatnajökuls er ekki einungis nálægt jöklunum, heldur einnig við sjávarsíðuna þar sem margt áhugavert er að skoða. Humar er sérgrein Hornfirðinga og er bærinn stundum kallaður Humarhöfuðborg Íslands eða Humarbærinn Höfn.

 

OTTO Matur & Drykkur

OTTO Matur & Drykkur er gullfallegur veitingastaður í einu elsta íbúðarhúsnæði Hafnar sem var byggt af Otto Tulinius sem veitingastaðurinn dregur nafn sitt af. Veitingastaðurinn er umvafinn hlýleika hafnarinnar og iðandi lífi fólks og fjölskyldna

OTTO matur & drykkur einkennist af hlýju, þar sem að viðmótið, umhverfi og matur umleikur hvern þann sem sækir þau heim.

 

Humarhöfnin  

Hugmyndafræði veitingastaðarins byggist á að nýta mat úr héraði. Hægt er að gæða sér á ljúffengum humarréttum og njóta útsýnis yfir höfnina, eða sitja úti við í góðu veðri með góða máltíð og kaldan drykk. Að sjálfsögðu býður staðurinn upp á fleira á matseðlinum en humar, til að mynda íslenskt lambakjöt, bleikju og marga aðra ljúffenga rétti.

 

Pakkhúsið 

Staðurinn er í hjarta bæjarins, rétt við höfnina og við hliðina á Upplýsingamiðstöðinni í Gömlubúð. Veitingastaðurinn heitir eftir húsinu sem hann er í, Pakkhúsinu sem var byggt 1932, og er útsýnið úr veitingasalnum hreint frábært. Pakkhúsið leggur áherslu á ferskt hráefni úr heimabyggð og er í samstarfi við marga bændur sem og sjómenn til að fá sem ferskast hráefni hverju sinni. Pakkhúsið býður upp á fyrsta flokks humar, lamb, önd og góða eftirrétti.

 

Íshúsið Pizzeria  

Íshúsið er pizzastaður sem leggur áherslu á steinbakaðar pizzur en auk þess ágætis úrval af öðrum réttum úr hráefni í hæsta gæðaflokki. Íshúsið býður upp á góða og hlýlega þjónustu, góðan mat og notalegt andrúmsloft. Íshúsið er við höfnina, á sama stað og áður stóð hús sem kallað var Íshúsið sem nýtt var til að geyma stóra ísklumpa úr jöklinum til að kæla fisk.

Z-Bistro  

 Z-Bistro leggur áherslu á að bjóða upp á sem flesta rétti úr úrvals hráefni úr heimahéraði. Á matseðli má finna pizzur, pasta, humar, lokur, steikur og hamborgara svo eitthvað sé nefnt. Staður þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

Kaffi Hornið  

Kaffi Hornið er veitingastaður og kaffihús í hjarta bæjarins, með stórum gluggum og nægum sætum fyrir gesti. Staðurinn opnaði árið 1999 og hefur verið vinsæll hjá Hornfirðingum og ferðafólki síðan þá. Matseðilinn er afar fjölbreyttur og hvort sem þig langar í fisk, humar, pizzu, hamborgara eða loku – þá er það til. Allt er bakað og eldað á staðnum.

 

Veitingastaðurinn Ósinn

Ósinn er veitingastaður á fyrstu hæð Hótels Hafnar. Matreiðslumenn Óssins leggja mikið upp úr því að nota ferskar og lífrænar vörur, helst beint frá býli og sjávarfang sem veitt er á Hornafjarðarmiðum. Áhersla er lögð á að elda humar á marga vegu og að flestir geti fundið sér eitthvað við hæfi.

 

Matsölustaðurinn Hafnarbúðin 

Hafnarbúðin er lítill og gamaldags matsölustaður sem býður upp á fjölbreyttan matseðil af skyndibita auk annarra rétta; humarlokur, salöt, djúpsteiktur fiskur og samlokur. Á sumrin er dögurður í boði alla morgna. Hamborgarar á matseðli heita eftir eiganda staðarins. Ef þú ert að leita að mat upprunnum í sveitarfélaginu, frumlegum og ekta, þá er þetta staðurinn. Hafnarbúðin var stofnuð 1982 og stendur við höfnina.

Aðrir möguleikar

Visit Vatnajökull
Visit Vatnajökull